Ég fór í kringluna um daginn. Mér finnst lúmskt gaman af því að fara í kringluna, sér í lagi þegar tilgangur ferðarinnar er að kaupa eitthvað sem að gerir mig hamingjusamann. Það var einmitt tilgangur ferðar minnar þann daginn. Ég glími samt við eitt vandamál sem hefur áhrif á Kringluferðir mínar, mig langar ekki að hitta fólk. Ég er nefnilega mjög lélegur í small talki og svo á ég líka erfitt með að muna nöfn.
Það er fátt jafn vandræðalegt og að mæta einhverjum sem að þú kannast við en manst ekki hvaðan, taka svo ákvörðun um að gera ekki neitt og þykjast ekki sjá viðkomandi. Eiga það svo á hættu að fólk búi til sögu um hvað maður sé orðinn mikill með sig, heilsi ekki einusinni.
Sölufólk á göngunum eru líka óþolandi. Hressir kallar að bjóða mér allskonar viðbótar eitthvað sem ég veit ekki hvað er. Einn slíkur varð á vegi mínum um daginn. Kona á miðjum aldri að selja einhvern andskotan. Ég sá hana framundan og bjó mig undir að komast undan henni á einfaldan hátt. Ég ákvað að kurteist "Nei takk" með velvaldri handahreyfingu væri málið, eitthvað svona sem að sýndi að ég var svaka mikið að drífa mig.
Og það var eins og við manninn mælt, konan spottar mig og nálgast með miða í hönd, ég geri mig tilbúinn að skjóta hana niður í flugtaki. Konan opnar munninn og ég gef í, hún spyr og ég svara tilbúnu svari mínu á sama tíma.
"Villt þú hjálpa okkur að gefa fátækum að borða?"
Mér sortnar fyrir augum og bulla eitthvað óskiljanlegt á sama tíma og ég rek augun í merki Samhjálpar. Konan brosir fallega og snýr sér eitthvað annað. Ég held för minni áfram og ráfa um musteri Mammons í leyðslu. Kaupi mér ekki neitt.
Ég er búinn að vera með bullandi samviskubit síðan þá og er auðvelt skotmark fyrir góðgerðar stofnanir og þá sem að biðja mig um pening. Ég keypti til dæmis dagatal af þroskaheftum manni á Ölstofunni um daginn fyrir tvöþúsundkall en dagatalið kostaði bara 1500. Ég hafði ekki í mér að biðja um afganginn.
Það er alveg magnað hvað manni líður vel eftir að hafa eytt smá pening og það er bara bónus ef að hann endar í góðu málefni.
Flokkur: Menning og listir | 2.12.2007 | 17:20 | Facebook
Athugasemdir
Kringlan hvað? Hvernær er næsta Smáralindarferð spyr ég? Það er svo gaman að borða glóðaðan fridays og móðga gamla kunningja (og börnin þeirra í leiðinni) rétt fyrir lokun á laugardögum.
Örlygur Axelsson, 3.12.2007 kl. 14:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.